Ljóðrænt krosstyngi, málflæði eða translanguaging
Eitt af þeim hugtökum sem ég hef reynt að taka upp er krosstyngi (e. translanguaging). (ChatGPT stingur upp á orðinu málflæði í stað krosstyngis en ég hef ekki fundið það orð notað um þetta á íslensku, en það er vissulega hægt að sjá rök fyrir því.) Út frá því sjónarhorni hugsum við ekki málnotkun og samskipti út frá nafngreindum tungumálum (eins og íslensku, ensku og arabísku). Þess í stað lítum við á tungumál sem félagslegar auðlindir án skýrra marka, og öll orð, málfræðilegar byggingar, orðatiltæki og svo framvegis, sem málnotandi hefur aðgang að, mynda heildstætt safn málauðlinda. Þá hugsum við ekki um tiltekin tungumál heldur aðeins um málnotkun (e. languaging).
Mér datt í hug eitt lítið ljóðapoem (hugtak frá Angela Rawlings, en ég er ekki viss um að ég noti það á alveg sama hátt og hún) sem ég samdi 2011, löngu áður en ég hafði séð orðið translanguaging á prenti.

Í ljóðinu er ýmsum þekktum frösum og brotum úr mínum málbjörgum (finnst mér bjargir kannski betra orð en auðlindir?) stillt upp og það á að bergmála milli mála. Textatengslin eru ekki beinlínis rökræn (frekar en venja er í ljóðrænu) heldur í ætt við hugrenningatengsl sem stundum geta vísað í skylt inntak en stundum frekar í hljóðlíkingar. Kannski er ekki um málflæði (krosstyngi) að ræða því þetta snýst ekki beint um að ég (ljóðmælandi) sé að reyna að gera mig skiljanlegan með því að beita orðum úr ýmsum áttum. Kannski þvert á móti, þetta er galsaleikur sem bendir á hliðstæður sem eru ekki hliðstæður nema að litið sé burt frá mikilvægu samhengi, leikur að klisjum og leikur að ólíkum málsniðum. Eða kannski nást fram einhverjar annars ósegjanlegar skrítnar tengingar eins og alltaf eru í málbjörgum okkar sem innihalda ótal málbrot úr ýmsum áttum, sum misskilin eða misheyrð en kunna einmitt að vera generatíf fyrir okkur, sem sagt uppspretta að eigin málnotkun. Sem er alltaf bæði persónuleg fyrir okkur (engin hefur nákvæmlega sömu málbjargir) en líka sameiginleg fyrir stærri hópa (ef ekkert væri sameiginlegt myndum við ekki skilja neitt og ekki geta gert okkur skiljanleg).
